Sigrgarðs saga frœkna

This is a transcription of the 1884 edition of the saga, from the images available at saganet. When Alaric's proofread it, he'll upload a suitably formatted version to Project Gutenburg, but for now it's here. The transcription mimics the lineation of the original. The edition contains occasional odd spellings (e.g. konungur for konungr) and typos, marked by this transcription with 'sic', while double angle quotation marks are rendered as typewriter quotation marks. Further work by Alaric can be found in his article on Sigrgarðs saga.

SAGAN
AF
SIGRGARÐI FRŒKNA.

---XXX---

REYKJAVÍK.
Prentuð í prentsmiðju Einars Þórðarsonar.
1884.

[p. 1 blank]

[p. 2]

SAGAN
AF
SIGRGARÐI FRŒKNA.

---XXX---

REYKJAVÍK.
Prentuð í prentsmiðju Einars Þórðarsonar.
1884.

[p. 3]

Hér hefr Sigrgarðs sögu ins frœkna.
-----
Ríkarðr hefir konungr heitið. Hann réð fyrir Garðaríki, 
og þótti höfðingi mikill. Drotningu átti hann þá, er 
Silvæn hét, og var hún af göfigum ættum. Son áttu þau 
þann, er Sigrgarðr hét. Hann óx upp með föður sínum, 
og var allra manna fríðastr sýnum, sterkr að afli og fimr 
á allar íþróttir, svo að enginn fannst hans jafningi hvað 
sem reyna skyldi. Hann var ríklyndr, þrásœkinn og 
kappsfullr. Hann var örr af penningum við vini sína, og 
það var honum mestr fögnuðr að veita þeim lið, en ó-
vinum sínum var hann inn óþarfasti. Treysta mátti því, 
að hann efndi heit sín, hvort sem þau vóru til ils eðr 
góðs. Sá maðr bjó þar í grend, er Gjóstólfr hét. Gerðr 
hét kona hans. Þau áttu tvo sonu; hét annar Högni, enn 
hinn Sigmundr. Báðir vóru þeir stórir og sterkir, og ó- 
fyrirleitnir í uppvexti, og vildu ráða meir enn til hálfs
við föður sinn. Þeir vóru leikbrœðr konungssonar, og mælti 
hann oft eftir þeim þó að hirðmenn gerði þeim nokkuð 
harðleikið, enn þeir vóru inir œstustu í mót. Þeir vóru 
lítt settir til klæða, enn þau, sem þeir höfðu, rifu hirð- 
menn af þeim, enn konungsson bœtti þeim ávalt skaðann.
Úlfr hét ráðgjafi konungs, og vandaði hann oft umm við 
konungsson, að hann fékk þeim klæði sín. Eggjaði Úlfr og 

[p. 4]

hirðmenn oftlega á ójafnað við þá brœðr, svo að þeir 
legði af komur sínar. Konungsson kvað Úlf það engu skifta, 
þó að hann gæfi þeim gömul klæði sín, og kvað óþarft, 
að bekkjast til við þá. Með konungi var þræll, sá er Mel- 
snati hét. Hann var mikill og sterkr, svo að hann var á 
við tólf karla fullröska, till hvers sem hann gekk. Og ein- 
hvern dag, er þeir brœðr vóru að knattleikum, karlssynir, 
biðr Úlfr hann að drepa annanhvorn þeira karlssona. 
Léku þeir af miklu kappi, og sem á leið, kastaði Melsnati 
knettinum að Högna, enn Högni sendi honum knöttinn 
aftr og all-óþyrmilega; sló Melsnati þa knettinum á kinn- 
bein Sigmundi, og varð það allmikið sár. Sigmundr snar- 
aði knettinum að Melsnata, enn hann þreif knöttinn á 
lofti og sendi Högna og misti hans. Melsnati hljóp þá 
að Högna, og rak báða knefa fyrir brjóst honum, svo að 
hann hörfaðri undan lítið eitt. Úlfr skaut þá knettinum 
að Sigmundi, enn hann brá fyrir öðrum manni og rotað- 
ist sá að fullu. Þreif þá Högni í hönd Melsnata og sleit 
af í axlarlið, og sló á nasir Úlfi, svo að hann fell á stein 
og molaðist hausinn, og var það hans bani. Hlupu menn 
þá til vopna og sögðu konungi, hvar komið var. Kom 
konungsson þeim brœðrum til liðs, og kom hestum undir 
þá, enn þeir hleyptu í skóginn. Var konungr nú inn reið- 
asti og lét leita þeira brœðra, enn þeir fundust hvergi. 
Gerir hann þá nú útlæga úr ríkinu og réttdræpa, hvar 
sem þeir fyndist eðr til þeira spyrðist.
 2. Eftir þetta géngr Sigrgarðr fyrir föður sinn, og 
bað hann að fá sér athvarf nokkuð, að hann mætti sig 
halda og menn sína. Fékk konungr honum þá kastala til 
ummráða, og fimm skip, ef hann vildi af landi fara. Valdi 

[p. 5]

konungsson sér nú marga unga menn, fríða og frœkna, þá 
er vóru að hans skapi. Enn hann var svo fríðr, að engin 
kona geymdi sín fyrir honum; hann fœrði sér það og í 
nyt, því að engi var sú kona, er hann girntist, að hann 
eigi féngi hjá að hvíla; hirti hann eigi umm, hvort þær 
vóru ríkar eðr snauðar, konungadœtr eðr karla, meyjar eðr 
manna konur; enn engri sinnti hann lengr enn þrjár nætr. 
Þótti ríkum mönnum það svírvirðing, er dœtr þeira og 
frændkonur vóru svo smánaðar, enn þeir urðu það svo bú- 
ið að hafa, því að enginn þorði umm að vanda. Sömdu 
menn hans sig og eftir hans háttum í þessu sem öðru. Var 
Sigrgarðr stundum í hernaði, og vann ávalt sigr, hvar 
sem hann fór. Enn sama hélt hann á umm sitt kvennafar, 
hvar sem hann var staddr.
 3. Í þennan tíma réð fyrir Tartaría konungr sá, er 
Hergeir hét. Hann var gamall, og átti þrjár dœtr. Hét 
ein Hildr, önnur Signý, þriðja Ingigerðr, og var hún elzt 
þeira. Hún var allra kvenna fríðust. Hergeir konungr 
hafði snemma mist drotningu sína, er dœtr þeira vóru ung- 
ar. Tók hann sér þá aðra konu, er Hlégerðr nefndist, enn 
enginn vissi ætt hennar. Hún átti brœðr tvo, og vóru 
báðir miklir menn fyrir sér. Hét annar Skjöldr enn 
himm Hjálmr. Hafði konungur [sic] þá í miklum hávegum, enn 
eigi vóru þeir vinsælir af alþýðu. Var Hlégerðr drotning 
mikil fyrir sér, og var konungr henni mjög eftirlátr. Ekki 
fell vel á með þeim drotningu og Ingigerði. Hjálmr bað 
Signýjar, enn Skjöldr Hildar, og var drotning mjög þess 
eggjandi. Spyr konungr þá dœtr sínar, hverju þær vilji svara, 
enn þær kváðust óráðnar þar til vera, og engin skil vita 

[p. 6]

á, hvað manna þeir væri brœðr. Þá mælti Ingigerðr við 
föður sinn: "Margir menn undrast það, hvé mjög þú heldr 
af fólki þessu, er engi veit hvaðan er, og grunar suma 
vini yðra, að drotning yðar sé eigi af góðu bergi brótin, 
enn ef eg mætta ráða fyrir systr mínar, skyldu þær betra 
gjaforðs bíða enn þessa." "Snemma þykir mér þér viljið bera 
mig ofrliði," mælti konungr, enn þær sögðu báðar, að fyrr 
skyldi þær alla ævi ógiftar vera enn eiga slíka menn, og 
lauk svo tali þeira. Sagði konungr Hlégerði drotningu orð 
þeira. Kvað hún, að sér þætti hann því meira lítilmenni, 
sem hann léti börn við sig ráða. Varð þeim það nokkuð 
að orðum.
   Eina nótt varð konungr bráðauðr í rúmi sínu. 
Spurðist það skjótt umm borgina. Segir Hlégerðr Ingi- 
gerði þessi tíðindi, "og vilda eg nú," segir Hlégerðr, "að við 
létum nokkuð batna umm vinfengi okkart, og muntu nú 
bráðum gifta bræðrum mínum systr þínar, enn þér hefi 
eg hugsað fyrir betri giftingu." ["]Auðnan mun ráða giftingu 
minni," segir Ingigerðr, "og eigi ertu launaverð fyrir það, að 
þú hefir myrt föður minn, og vil eg engin mök við þig 
eiga né brœðr þína, heldr skal yðr öll á brott reka héð- 
an, og samir yðr betr að fá það eðli, er þér eruð til sköp- 
uð, þar þér munuð fremr tröll enn menn vera." Þá mælti 
Hlégerðr":[sic] "Fyrir löngu vissa eg, að eg mundi ilt af þér 
hljóta, og legg eg það á systr þínar, að Hildr skal verða 
að gyltu, og skulu grísir mínir sjúga hana, enn Signý að 
flókatryppi, og skulu graðhestar mínir elta hana. Skulu 
þær aldrei úr þessum ósköpum komast meðan brœðr mín- 
ir lifa, enn þér er laginn höfðingsskapr svo mikill, að eg 
fæ eigi hnekt honum. Samt legg eg það á þig, að þú 

[p. 7]

skalt engum trú vera, og hvern biðil svíkja eðr tæla, og 
skalt þú aldrei fá þá ást á þeim, að þú eigi sitjir umm líf 
þeira; þar með skalt þú vera svo eigingjörn, að þú skalt 
alla hluti ágirnast, enn öllum illa launa. Skulu öll þessi 
álög haldast meðan þú lifir, nema einhver biðla þinna 
sprengi egg það á nösum þér, er fjör mitt er í fólgið og eg 
sjálf geymi, og mun það seint verða, sem eg og vildi." "Nóg 
er mælt umm sinn," segir konungsdóttir, "og skal nú þetta 
þitt seinasta orð, hversu lengi sem þú lifir héðan af." Hlé- 
gerðr ætlaði þá að tala meira, enn geispaði og gat ekki 
mælt. Engi maðr vissi þetta tal þeira utan þeir sjálfar. 
Síðan hverfr Hlégerðr drotning og brœðr hennar og þær 
konungsdœtr báðar á brótt, og vissi enginn hvað af þeim 
varð. Þótti mönnum alt þetta mikil tíðindi.
 4. Ingigerðr lætr nú kveðja til þings umm allt land- 
ið; hún var þá fimtán vetra gömul. Lætr hún sig þá 
til konungs taka yfir öllu ríkinu. Tók hún svo við ríkisstjórn, 
og stóð svo mikil ógn af henni, að enginn þorði öðru vís 
að sitja eðr standa enn hún vildi. Fréttust nú þessi tíð- 
indi víða, og þótti mönnum mikils umm vert. Þótti mörg- 
um góðr kostr þar sem húm var, og urðu því margir á- 
veg, að hún lét drepa þá alla og binda höfuð þeira á 
garðstaura, en þá menn, er vetrvist tóku hjá henni, ginti 
hún alla og tók fé þeirra[sic]. Varð hún af þessu fremr ó- 
vinsæl, og þótti mörgum þetta mikil vandræði, því fremr,
sem mjög þótti fýsilegt að fá hennar, ef þess yrði auðið, 
með því og að hún var in vitrasta kona og hagasta á 
handerðir allar. Stóð svo mikill ótti af hennar tilteknum, 
að enginn vogaði hennar að biðja, eðr nokkur skifti við 

[p. 8]

hana að hafa. Fór svo fram, þar til er hún hafði þrjá 
umm þrítugt.
 6.[sic] Tökum nú aftr þar til máls, sem Sigrgarðr var í 
hernaði, og varð honum gott til fjár og mannorðs. Hann 
hafði og aukið fjölmenni sitt og fengið tíu skip, vel skipuð 
góðum drengjum. Var hann því frægr af hernaði sínum, 
enn sam hélt hann á með kvennafar. Hefir hann og frétt 
af meykonginum í Tartaría, og fanst mikið umm; hafði 
hann og séð mikið af hennar handerðum, og þótti honum 
sem fölskvi það sem aðrar konur höfðu gert hjá verkum 
hennar. Nú með því að hann treysti sér vel, og þóttist 
eigi minni verðr enn aðrir, sem hennar höfðu beðið, býr 
hann ferð sína til Tartaría, og sem hann kom fyrir hafnir 
þær, er láu fram undan borg Ingigerðar drotningar, hag- 
aði hann svo siglingu sinni, að þeim skyldi sem mest umm 
finnast, er fyrir væri; sullsnúraðir reflar vóru á seglum 
þeira, og allr reiði skein svo sem á gull sæi, enn dreki 
sá, sem hann stýrði sjálfr, var svo stór, að mörgum lá 
við ótta, og sem þeir vóru landfastir, bera þeir tjöld á 
land og fanst mönnum ei minna umm hvé fögr þau vóru. 
Undruðust allir þenna fararblóma. Lét nú Sigrgarðr bera 
merki sitt í land. Stöngin var tíræð á hæð; gullofið silki 
var í merkinu með reimum svo síðum, að tóku á miðja 
stöngina. Voru þar og við festar hundrað dynbjöllur úr 
rauðagulli, og var þetta alt in mesta gersemi. Drotning 
gerir nú menn til skipa að forvitnast hverjir komnir væri 
og hverra erinda, eðr hvort þeir vilji frið hafa. En Sigr- 
garðr sagði alt sem var. Þeir kváðust hafa heyrt hans 
getið, og hans frægðarverka, og vilji drotningin vita, hversu 
búast skal við hans þarkomu; enn hann sagðist engum 

[p. 9]

skyldu mein gera. Fóru sendimenn heim og sögðu drotn- 
ingu. Hún spyr, hvé fríðr maðr Sigrgarðr væri. Þeir 
sögðust engan mann fríðari séð hafa, og ei stórmannlegri 
að öllu, og að þar eftir færi hœverska hans og lítillæti. 
Hún kvaðst og hafa heyrt svo frá honum sagt, og spyr 
menn sína hvort þeim sýnist ráðlegt að bjóða honum til 
veizlu, enn þeir sögðu gott vera við slíka menn að vingast. 
 6. Nú eru sendir menn til strandar til að bjóða Sigr- 
garði heim til veizlu virðulegrar, med svo marga menn, 
sem hann vildi. Þá hann það, og bjóst til hallar með 
þúsund manna, og sem þeir kómu, leiddi drotning þá til 
sætis og reis þar upp in vænsta veizla. Settist Sigrgarðr 
í háseti hjá drotningu. Var hún blíð í máli við hann 
og mælti: "Nú er mér það að sjónum orðið, sem eg hef 
spurn af haft hingað til, og þykir mér ei orðum aukið 
sem frá yðr er sagt, umm yðvarn vænleik, vöxt og aðra 
hluti, sem yðr eru til sœmdar, eðr hvort hafið þér yðvarri 
ferð heitið,[sic]" Hann svarar: "Með yðar leyfi vil eg bæði 
segja hvert eg hafði ferðinni heitið og svo mitt erindi; 
eg gefi spurt mikið af frægð yðvarri, og hefi eg nú séð 
yðvart veldi og ríki. Hefir mér í hug komið að leita 
þeirra[sic] mála við yðr, að okkar kynning mætti verða meiri 
enn áðr. Vil eg þó eigi fara þess á leit, ef þér kynnuð 
við það að styggjast." "Skilja þykist eg málaleitun yðra," 
segir hún, "eðr hafið þér ekki frétt, hversu þeim hafa 
tekizt erindin, sem þeira mála hafa leitað við mig, svo 
sem þér megið nokkur merki til sjá hér hjá borginni." 
"Mér kemr í hug, "[sic]segir Sigrgarðr,"[sic] að þótt nokkuð muni 
hafa áfátt orðið umm yðra hagi, þá munu þér nú þau 

[p. 10]

víti forðast og bœta það sem yðr hefir áðr yfir sézt." 
Hún mælti: "Þeir einir hafa til þess orðið, að leita slíkra 
mála við mig, sem mér hefir þótt lítilræði í vera, og hefi 
eg svo viljað kenna lítilmennum þeim, að gera eigi gabb 
og spott að mér." "Vorkunn er það," segir Sigrgarðr, 
"samt forvitnar mig að vita, hver svör þú mundir veita, 
ef eg leitaði þass við þig, að þú yrðir mín eiginkona." 
Hún svarar: "Vandi er mér á, að svara þessum orðum, 
því að sá orðrómr rís umm þig, að þú hafir mörgum hœ- 
verskum konum góðu lofað, enn illa efnt það er þú hefir 
þeir heitið, og eru slíkir menn vandsénir." Hann svar- 
ar og brosti við: "Á slíku þarf þig eigi að furða, þar 
sem þú hefir engu meiri trúnað sýnt þínum elskhugum; 
enn allar þær konur, er eg hefi þekt, hafa og verið lít- 
ilsháttar, svo að eg hefi eigi getað sinnt þeim lengr enn 
eg hefi gert." "Ef þér væri alvara," segir hún, "umm 
þetta mál, sem þú hefir ávikið við mig, og eg vissa þinn 
fullan vilja þar til, þá munda eg góð svör gefa, því að 
mér sýnist þú flestum mönnum ólíkr, sem eg hefi séð. 
Enn vor ráð gerast svo, fyrir ofríki vondra manna, að vér 
þurfum forstöðu fyrir oss og ríki voru." "Treysta mun eg 
mér að verja ríki þitt fyrir óvinum," segir Sigrgarðr, 
"og ef þú veitir mér blíðu þína, mun mín í móti koma, 
og vil eg víst vita, nær við skulum á þessum málum 
fullnað gera með þínu samþykki." "Eg á hér öðrum að 
ráða, enn aðrir eigi mér," segir drotning, "og veit eg eng- 
an þann mann, er betr kynni að ráða enn eg sjálf, hverj- 
um ráðum sem ráða skal. Megum við að vísu bindast 
trúnaðarmálum þótt eigi sé aðrir viðstaddir enn okkrir

[p. 11]

nánustu vinir og sveinar, sem okkr skulu allan trúnað 
veita. Því að eg vil eigi missa ins bezta manns. Enn til 
þess að opinbert verði okkart samþykki og óbrigðult, þá 
skaltu láta heim bera merki þitt í kastala þann, er við 
munum í sofa, því að það vil eg í tilgjöf þiggja af þér. 
Er þá öllum ljóst, að eg hefi gefið mig á þitt vald og alt 
mitt ríki." Þykir Sigrgarði nú vel áhorfast, og skiptust 
þau nú lystilegum launkossum, enn orð drotningar vóru 
svo fögr, sem úr gulli væri gerð. Bað hún alla menn 
vera káta of skemta Sigrgarði og mönnum hans, því að 
hún kvað hann vera sinn unnusta. Enn þá, sem kunn- 
igir vóru skaplyndi hennar, grunaði, hverju gegna mundi 
sú gleði; enn mönnum Sigrgarðs þótti vel í veiði 
bera, og vóru inir glöðustu. Leið svo dagrinn til kvelds. 
Vóru þá menn Sigrgarðs til svefnstofu leiddir, með sœmi- 
legum ummbúnaði, enn sjálfr var hann leiddr í kastala 
drotningar. Þótti honum þar gott umm að litast. Þar stóð 
sæng upp búin og tjölduð purpura og guðvef. Stólparnir 
vóru sem á gull sæi, en svo fögr sem sængin var, var 
þó miklu fegri sú kona, er í henni hvíldi, enn það var 
drotningin sjálf. Sté nú Sigrgarðr upp í sængina og hugs- 
ar gott til sinna efna. Var drotning in blíðasta við hann 
og tekr gullskál og spyr, hvort hann vilji drekka fyrr eðr 
síðar. Hann biðr hana fyrst drekka, og svo gerir hún. 
Enn óðra enn hann hefir drukkið, hallar hann nú eigi fyrr enn 
um morguninn; er þá drotning klædd og brott géngin. 
Vóru þá og menn hans inn komnir og spyrja, hversu 
hann hafi sofið umm nóttina, enn hann kvaðst œrið fast 

[p. 12]

sofið hafa. Klæðist hann nú skjótt, og géngr til hallar 
á fund drotningar.
 7. Drotning tekr nú í hönd Sigrgarði og leiðir hann 
til hásætis hjá sér, og biðr hann vera glaðan. Síðan sett- 
its hún niðr hjá honum og tókst drykkja mikil. Var 
drotning in kátasta, og tók gullskál og drakk til Sigrgarði 
og spurði, hví hann væri svo ókátr. Hann svaraði: "Það 
þykist eg vita," segir hann, "að þér muni þykja eg hafa 
lítið eftirlæti sýnt þér í nótt." "Víst hugði eg til betra," 
segir drotning, "þó hefi eg og heyrt, að öl er annar maðr, 
og mátt þu það aftr bœta og mun eg eigi gefa þér það 
að sök að sinni, enn svo mun fara um þig sem aðra 
fleiri, að eg mun eigi lengi þola þér slíka hluti orðalaust." 
Líðr svo dagrinn til kvelds, og er drotning in blíðasta. 
Eigi verðr henni umm annað tíðara talað enn svefn Sigr- 
garðs nóttina áðr. Millum annara orða segir hún svo: 
"Með hverju vilt þú, Sigrgarðr, bœta mér ginningu þá, 
er tú gerðir mér í nótt; þykist eg sœmdarverð fyrir það, 
að eg þegi yfir skömm þinni; þœtti mér verða mega, að 
þér yrði slíkt ei oftar, þótt eg yrði til við þig." "Eg veit 
engan þann hlut," segir hann, "er mér þykir þér ofgóðr." 
"Skjöld og sverð sá eg hanga hjá merki þínu," mælti 
drotning; "það eru góðir gripir; þá skaltu láta fylgja 
með merkinu." Hann mælti: "Þessir hlutir og alt ann- 
að, sem eg hefi ráð á, eru á þínu valdi." Taka þau nú 
höndum saman og gerast mjög kát. Líðr nú dagrinn að 
kveldi, og ganga þau nú bæði til rekkju. Hafði Sigrgarðr 
lítt drukkið um daginn, og er hann er kominn í sæng 
sína, biðr hann svein sinn, að fá sér nokkuð að drekka; 

[p. 13]

drekkr hann þá til drotningu, og drakk hún fúslega með 
honum. Bað Sigrgarðr þá alla menn burt ganga, enn 
hann hallaði sér að koddanum og var óðara sofnaðr. Sváfu 
þau svo af umm nóttina, enn er haninn gól umm morguninn, 
vaknar drotning og klæðir sig skjótt. Enn Sigrgarðr sefr 
þar til er menn hans koma inn, og frétta hann, hversu 
hann hafi sofið. Enn hann kvaðst víst all-fast sofið hafa, 
og kvað það eigi vera mundu einleikið, og eigi mundi log- 
ið af brögðum drotningar. Þeir kváðu rétt að taka hana 
þá meðvaldi. "Eigi þykir mér það ráðlegt," segir hann, 
"því að hún hefir miklu meira lið enn vér. Mun henni 
lítt finnast til um tillæti mitt, þar sem hún mun þykjast 
gera oss vel til." Stendr Sigrgarðr nú upp og klæðir sig, 
og géngr til hallar. Var drotning þar fyrir og mjög úfin 
í skapi. Sigrgarðr heilsaði henni. Hún mælti: "Ertu svo 
djarfr að koma fyrir augu mín eftir svo mikinn dáraskap 
sem þú hefir sýnt mér; hefi eg látið drepa marga menn 
fyrir minni sakir, og hefir þetta illa tiltekizt; lítilsvirt 
margan góðan dreng, enn kosið mér þann, er engi dreng- 
skapr er í, og aldrei mun að manni verða. Hefi eg hvílt 
hjá honum tvær nætr og þekki eg engan jafn dáðlausan. 
Furðar mig eigi, þótt þú sért óþokkaðr af konum, og veit 
eg nú hvað veldr, þótt þær hafi eigi í ljós látið það, sem 
eg hefi fulla einurð upp að bera. Þætti mér mikils umm 
vert, ef eg mætta annan mann fá, enn þessi lydda vefst 
fyrir fótum mér, svo að eg má ei öðrum giftast." "Bœtr 
liggja til alls," segir Sigrgarðr. "Engu ert tú nýtr og 
ekki hefir þú oss að bjóða," segir hún, "enn legg nú þeg- 
ar fram það, er þú vilt oss bœta fyrir vora svívirðu. 

[p. 14]

"Alt vil eg til vinna," mælti Sigrgarðr, "að eg nái hylli 
þinni." Þá mælti drotning: "Legg nú fram drekann góða, 
er þú stýrðir hingað, og mun eg þér þá ei mein gera." 
"vel mun okkr þá semja," segir hann.
 8. Drotning býðr nú Sigrgarði til borðs að ganga, og 
er hann bæði hryggr og reiðr af þeim svívirðilegu orðum, 
er drotning hefir valið honum í margra manna áheyrn. 
Skipaði hann að flytja drekann þangað, sem drotning vildi,[sic] 
Drotning spyr hann, hví hann sé svo hljóðr, "eðr leikr 
þér ástarhugr á drekanum." "Lítils þykir mér hann 
verðr," segir Sigrgarðr, "enn meira þykir mér umm vert 
að fá að njóta þinnar vináttu." "Eigi er mig umm það að 
saka," segir drotning,"[sic] og munu eigi aðrar drotningar eðr 
konungadœtr betr hafa við þig gert. Þættist eg og sæl, ef 
eg féngi þín að njóta enn væri þetta á þig lagt, þá mætti 
þér síðr umm kenna." "Eigi veit eg þess von," segir hann, 
"enn allr þykjumst eg annar maðr síðan eg kom hingað." 
"Engar dylgjur viljum vér heyra," segir drotning; "enn 
þó að eg búizt við, að þú aukir enn á þinn ósóma, meg- 
um við þó enn til reyna eina nótt." Sigrgarðr lét sér það 
vel líka. Tóku nú allir að gleðjast, og svo bæði þau. Líðr 
nú dagrinn, og er í fyrsta lagi til svefns géngið. Géngr 
Sigrgarðr til kastala drotningar; er hún þar fyrir og bregðr 
faðminum mot honum. Sté hann í sæng hennar, og varp- 
ar þegar í burt koddanum og ábreiðunni, og dró niðr 
rúmtjaldið. Enn drotning var in blíðasta, og snýr hann 
sér nú að henni. Í sama bili brast þilið á baki honum, 
og kómu þar út tólf þrælar; þeir höfðu svipur snarpar og 
sveiga í höndum, og létu ganga á honum. Hann var í 

[p. 15]

línklæðum einum, og fékk hann þar mörg högg og stór. 
Hafði hann ekki vopna til varnar sér, enn þrælarnir 
máttu þó á kenna knefum hans. Náði hann nú einum 
þrælanna og slöngi honum í hópinn, og drap svo þrjá 
þeira, og þóttist sá illa haldinn, er orðinn var vopn í 
hans hendi. Nú kváðu við lúðrar umm alla borgina, og var 
öllum hlíðum upp lokið. Drifu nú menn drotningar að 
Sigrgarði úr öllum áttum, enn hann var vopnlauss fyrir. 
Þreif hann til þess manns, er fyrstr gekk að honum, og 
snarar af honum hjálminum og höfuðið með úr hálsliðun- 
um, enn slœr inn næsta með hjálminum til bana, og tekr 
sverð hans; ryðr hann sér nú götu til dyra. Hafði hann 
þá fengið fimtán sár. Vóru menn hans þar komnir, 
og urðu honum fegnir. Sóttu nú menn drotningar að 
þeim Sigrgarði öllum megin, enn þeir létu undan síga til 
skipa. Var Sigrgarðr þá orðinn óvígr. Enn drotning hafði 
dregið saman svo mikinn her, að hvergi varð á land kom- 
izt. Siglir Sigrgarðr nú heim tíl[sic] föður síns og segir sínar 
ferðir eigi sléttar. Ríkarðr konungr faðir hans sagði slíks 
þaðan von vera, enn einkis betra. 
 9. Eftir þetta bað Sigrgarðr föður sinn, að fá sér lið 
til að hefna sinnar svívirðingar, enn konungr kvað sína 
menn eigi svo fala, að hann vildi hætta þeim móti slíku 
ofrefli og trölldómi, og kvað hitt vænlegra, að vinna 
drotningu með djúpsettum ráðum, því að hún væri ella 
óvinnandi, og "ætla margir, að henni muni eigi sjálfrátt 
vera umm sína hegðan." Sigrgarðr hugsar nú umm annað 
ráð. Jónar hét maðr; hann var ríkastr í öllum Austrvegi. 
Hann átti betri dýrgripi enn aðrir menn, og var hann af 

[p. 16]

því víðfrægr orðinn. Hann átti klæði það, er leið í loft 
upp af náttúru þeira steina, er í því vóru fólgnir, og 
rúnastafa, er þar í vóru saumaðir, ef þeir vóru rétt ráðn- 
ir. Skikkja var annarr dýrgripr, svo góðr, að eigi fanst 
slík fyrir norðan Grikklands haf. Tafl var inn þriðji gripr, 
af rauðagulli; karbunculus var inn fjórði gripr; hann var 
svo stór, að hann stóð mörk. Fór nú Sigrgarðr að finna 
Jónar, og falaði af honum gripina, og bauð honum í móti 
kastala þann, er faðir hann hafði honum gefið, og jarlsnafn 
með; þar að auk bauð Sigrgarðr Jónari jafngildi skikkj- 
unnar í silfri, og þar með vináttu sína. Kaupa þeir þessu, 
og skifta yfirlitum, og fór nú Sigrgarðr í kaupferð; héldu 
allir Jónar vera, þar sem hann fór. Umm síðir fer hann 
austr í Tartaría. Lét hann þar svo falan varning sinn, 
að enginn þurfti að kaupa. Þetta var sagt drotningu, 
og lofuðu allir þenna kaupmann. Drotning gerir þá ferð 
sína að heiman móts við Jónar, og spyr, hvort hann hafi 
gripi svo góða, sem orð fari af. Hann segir lítils umm 
það vert. Hún kvaðst vilja sjá gripina og kaupa, ef falir 
væri. Hann kvað þá ei fala, er beztir væri. Hún spyr, 
hvort hann ætli sína gæfu meiri enn annara, ef hann synj- 
aði sér kaups á þeim. Hann kvaðst ætla þá Miklagarðs- 
konungi. Hún kvaðst eigi vita þann konung, er betr 
hœfði góða gripi að eiga enn sér sjálfri, og bað hann 
meta gripina svo dýrt, sem hann vildi. Hann segir, hún 
muni vilja sjá áðr, enn kvaðst eigi vilja sýna henni grip- 
ina, nema hún lofaði að taka þá eigi af sér með ofríki. 
Hún kvað hann eigi þurfa þau orð umm að hafa, því að 
hún hefði nœgan afla til að taka hann og alt það, er hann 

[p. 17]

hefði með sér. Tala þau margt umm þetta, og verðr það
úr, að hann sýnir henni gripina, enn þó séu beggja þeira
menn þar nálægir á hvern veg sem kaup þeira fari. Umm
morguninn ber Jónar gripina á land, og kallar síðan á
drotningu. Hún stígr á klæðið góða, og biðr hann að
meta gripina. Hann kvað þá ei fala, utan fyrir sjálfrar
hennar blíðu. "Oflæti er það fyrir einn kaupmann, að fara
slíku fram," segir drotning. Hann stóð þá upp og les
rúnar þær er í vóru klæðinu, enn hún sá það og hugði
skjótt að hverja náttúru klæðið mundi hafa; hleypr til og
hrindir Jónari út af klæðinu svo hart, að hann lá flatr á
jörðu, enn klæðið leið í lofti uppi, því að drotning kunni
því að stýra. Þá mælti drotning: "Haf góða nótt, Sigr-
garðr og þökk fyrir góða gripi, og fær oss slíka marga".
Skyldu þau við svo búið, enn Sigrgarðr siglir heim til
föður síns.
 10. Nú þykir Sigrgarði litlu betri ferð sín enn áðr.
Biðr hann nú foður sinn enn umm lið til að hefna sinnar
svívirðu. Kvað Ríkarðr konungr hann þá svo mikið lið
skyldu fá, sem hann óskaði. Safnar nú Sigrgarðr ógrynni
liðs, þar til er hann hefir hundrað skipa, öll vel búin með
góðum drengjum.Enn áðr enn hann fer, kemr hann til
fundar við Gjóstólf og Gerði konu hans, og segir þeim frá
sínum vandræðum, of biðr þau að veita sér lið eðr góð
ráð. Kvaðst hann nú vilja hefna harma sinna ádrotn-
ingunni í Tartaría. Gerðr kvað það gæfuspell mikið, að
eiga í ófriði við þá drotningu, "því að eigi mun henni
sjálfráðr hennar óhemjuskapr; mun hún einhverjum ósköp-
um háð vera, og skaltu heldr leita annara ráða enn að

[p. 18]

herja í Tartaría; þar eru hraustir menn og grimmir, enn
ilt að týna góðum drengjum, ef til einkis er að vinna."
Síðan tala þau lengi einmælum. Þar eftir biðr Sigrgarðr
þau vel lifa, enn að skilnaði fær kerling honum poka, og
segir, hversu með skuli fara. Þar með bað hún hann að
veita tveim mönnum far á skipi sínu, þó að eigi væri
merkilegir, og hafa þau ráð, er þeim þœtti mestu varða.
Fór Sigrgarðr svo á brott, og báðu þau karl og kerling vel
fyrir honum. Sigldi hann nú á leið til Tartaría. Ein-
hvern dag féngu þeir veðr mikið og rákust mærri björg-
um nokkurum. Þá kom maðr fram á bjargið. Hann var
mikill vexti og underlega skaptr; hann var hrygglangr
mjög og í gráum vefjarstakki, er tók honum að knjám.
Hann beiddist fars. Sigrgarðr kvað honum heimilt far,
ef hann næði því, og spyr, hvað honum sé til lista lagt.
Hann kvaðst vel kunna að haga seglum. Hann stökk á
skipið niðr af berginu, og gekk skipið niðr umm naglfar.
Var hlaup þetta þrettán álnir af landi. Hann þrífr í
báða aktaumana og dró skipið frá landi. Þeir spyrja hann
að heiti, enn hann kvaðst Hörðr heita. Menn Sigrgarðs
hlógu mjög að honum. Annan dag sigldu þeir með landi
fram, og var þar aðgrynni mikið. Þeir sjá þar mann á
landi; sá var hár vexti og í skinnstakki. Sigrgarðr spyr
hann að heiti. Hann kvaðst Stígandi heita. Sigrgarðr
spyr, hvað honum sé til lista lagt. Hann kvaðst vel
kunna að troða marvaða. Sigrgarðr kvað það góða list,
og bað hann koma til skips ef hann vildi far hafa. Hann
gekk út á sjóinn of stikar stórum; var alda mikil, og tók
honum þó ei meir enn í skóvörp, og bar hann skjótt að

[p. 19]

skipinu. Hann hafði krókaspjót í hendi og varp sér upp
á skipið. Síðan sigla þeir Sigrgarðr leið sína. Spyr Sigr-
garðr komumenn tíðinda, enn þeir leystu vel úr öllu, og
var engi sá hlutr, er þeir kynni ei úr að leysa. Spyr
hann þá hvar þeir vissi þann víking, sem mestr frami
væri í að vinna eðr berjast við. Hörðr mælti: "Í Eystra-
salti liggr víkingr sá, er Knútr heitir, og kallaðr knapi.
Hann hefir þrettán skipa, og hefir aldri ósigr beðið í nein-
um bardaga, og verðr oss mestr frami, að berjast við
hann." Sigrgarðr spyr, hvar hans væri að leita. Hörðr
kvaðst það gerla vita, og sigla þeir nú þangað, er Knútr
er fyrir með liði sínu. Hafði hann og dreka stóran, er
var in mesta gersimi. Stafnbúi hans hét Jólgeir skjanni;
hann var einn herfilegr blámaðr. Gráboli hét annar;
hann hafði klaufir á fótum og sitt horn úr hverjum vanga,
hvöss sem spjótsoddar væri. Leggja þeir Sigrgarðr nú að
þeim Knúti, og hafa hvorirtveggja jafnan liðsafla. Knútr
spyr, hver geri að þeim svo sildan róðr. Sigrgarðr sagði
til sín. "Vorkunn er þér það," mælti Knútr, "þó að þú
viljir fjár afla þér fyrir það sem drotningin í Tartaría
hefir þér úr höndum dregið fyrir sakir ómensku þinn-
ar, of er slíkt skömm allmikil." "Engu skiftir þig það,"
segir Sigrgarðr, "og skaltu fá að reyna, hvort eg er
slíkt vesalmenni sem þú lætr." "Nær muntu þá ganga
verða," segir Knútr. "Eigi skaltu þess lengi bíða," segir
Sigrgarðr. Hefst þar hinn skæðasti bardagi, og réð Sigr-
garðr tvisvar til uppgöngu á drekann, enn blámaðrinn
varðist honum svo hraustlega, að Sigrgarðr varð frá að
hverfa. Stígandi krœkti krókaspjóti sínu í kjaft Jólgeiri

[p. 20]

og kipti honum úr stafinum, enn Sigrgarðr hjó af hon-
um höfuðið, og snaraði Stígandi því að öðrum manni og
fékk sá þegar bana. Þeir Hörðr og Stígandi hlupu báðir
senn á drekann og géngu sinn með hvoru borði, og drápu
margan mann. Snöri Gráboli þá mót Herði, og sló til
hans með gaddakylfu, enn Hörðr brá við kryppu sinni og
misti þá Gráboli kylfunnar, og ætlar að stanga Hörð með
hornunum; Hörðr þreif í annað horn hans og braut af,
og í sömu svipan steyptust þeir fyrir borð. Það sá Stíg-
andi, og hljóp fyrir borð á eftir þeim, og tók sjórinn hon-
um eigi meir enn í skóvörp. Lagði hann til Grábola með
krókaspjótinu og undir kjálka honum; síðan brá hann
snöru umm háls Grábola og hengdi hann upp í siglutréð,
og var hann þá dauðr; enn Hörðr komst heill upp á skip-
ið. Þeir Knútr og Sigrgarðr mættust, og ruddust fast umm.
Knútr lagði til Sigrgarðs með kesju, er ávalt var manns
bani. Sigrgarðr stökk í loft upp, enn kesjan kom í loku-
gatið á vindustokknum og festist þar. Sigrgarðr hjó til
Knúts, enn hann stökk fyrir borð og Sigrgarðr eftir honum,
og fundust þeir á mararbotni. Varð atgangr þeira bæði
harðr og langr, og vildi hver annan festa við grunn niðr;
Sigrgarðr tók þá poka kerlingar, og brá fyrir vit sér.
Mátti hann þá svo lengi í kafi vera sem hann vildi, og á
þann hátt kœfi hann Knút, og skyldi svo með þeim.
Síðan fór hann í herklæði Knúts, og kom svo búinn úr
kafinu. Var hann þá svo líkr Knúti, að allir heldu að
þar myndi Knútr koma. Hörðr og Stígandi hruðu skipin,
og fór það drengilega. Var það alt jafnt, að þeir höfðu
hroðið drekann og Knútr kom úr kafi. Kallar Knútr þá,

[p. 21]

og kvað Sigrgarð dauðan á mararbotni, og brá mönnum
Sigrgarðs mjög við þessi tíðindi. Var þá hætt bardag-
anum, og hafði fátt fallið af liði Sigrgarðs. Bauð Knútr
grið þeim mönnum, er með Sigrgarði höfðu verið, enn þeir
Hörðr og Stígandi urðu að sverja Knúti trúnaðareiða og
gerðust menn hans. Lætr hann nú liðið alt sigla heim
til Garðaríkis, og vill ekki hafa af herfangi. Enn þá Hörð
og Stíganda hefir Knútr með sér. Fréttir nú Ríkarðr kon-
ungr dauða Sigrgarðs sonar síns, og lætr sér fátt umm
finnast; enn mörgum manni varð þetta að harmi. Þetta
fréttir og drotningin í Tartaría, og brosti hún við, og
kvað oft vera skrökvað á skemri leið, enn það þóttust
menn sjá, að tár hryti af augum hennar.
 11. Á næsta sumri siglir Knútr austr í Tartaría og
og [sic] hrepti hafvillur og storma mikla, og leysti þá flota
hans í sundr. Komst hann á einu skipi til Tartaría, og
braut skipið í spón [sic], er að landi kom, enn menn allir
týndust utan tólf. Kómust þó fjárhlutir á land. Spurðu
þá menn hans, hvað hann hefði hugsað fyrir sínu ráði,
enn hann kvað vænlegast, að biðja drotningu vetrvistar.
Géngr hann á öðrum degi fyrir drotningu og þeir félagar
allir. Hún sat þá yfir borðum og kvöddu þeir hana
virðulega, enn hún lét sem hún heyrði það eigi. Hún
spyr, hvað manna þeir væri. Knútr sagði til sín. "Hefir
fyrir oss heldr slysalega til tekizt; mistum vér öll skip
vor hér við land, og kómum í land af skipbroti. Viljum
vér biðja yðr vetrvistar, enn skortir fé fram að leggja, er
vér höfum týnt fjárhlut vorum." Drotning horfir lengi
í augu Knúts og segir síðan: "Ertu sá Knútr, er drap

[p. 22]

Sigrgarð inn frækna?" "Eigi mun eg þess þræta," segir
hann; "vænti eg sœmda af þér fyrir, að eg hefi rekið af
yðr þann ósóma, er Sigrgarðr var." "Margt hefðir þú
mátt það vinna, er mér hefði betr líkað," segir drotning,
"enn hver verðr fjörvi sínu að forða; enn með því að
þú géngr á mitt vald, mun eg þessa eigi svo greipilega
hefna sem vert er; eðr hefir þú eigi spurt, hversu þeim
hefire farnazt, er hér hafa haft vetrvist." Aldri hefi eg
kviðið ókomnum degi," segir hann. "Vita þykist eg,"
segir drotning, "að þu munt mikið traust hafa á kryp-
lingi þessum, er hjá þér stendr. Hefi eg ykkr sendiför
ªtlað, og mun eg ætla þér þegjandi þörfina fyrir það, er
þú drapst Sigrgarð inn frœkna." "Á það verðr þá að
hætta," mælti Knútr.
 12. Knútr sendir nú menn eftir varningi sínum, og
lætr heim bera. Var honum og félögum hans vísað í
eina steinhöll, og sem þeir koma þar, þykir þeim þar ilt
um að litast; var þar myrkt inni og eigi fýsilegt inn að
ganga. Stígandi bauðst til að ganga fyrir, og stakk hann
krókaspjóti sínu á undan sér; fann hann, að þar var
jarðgröf undir í gólfinu, enn reft yfir með hrísi og myld-
að á ofan. Rann hann yfir gröfina, og þeir Hörðr og
Knútr á eftir honum; vóru það fullar tólf álnir; enn
Stígandi krœkti krókaspjóti sínu til annara félaga þeira,
og dró þá svo inn yfir gröfina. Tóku þeir nú skýlur frá
gluggum, of sjá þá að í höllinni liggja þrjátíu dauðra
manna. Köstuðu þeir þeim öllum í gröfina, og fyltu
hana með moldu. Í bekkjunum í höllinni stóðu upp
spjótsoddar, og brutu þeir félagar þá alla. Settust þeir

[p. 23]

Knútr nú að í höllinni, og höfðu menn sína á torgi til
matkaupa, og heldu sig að öllu ríkmannlega. Sendi
drotning þeim og oft góðar gjafir af borðum sínum, og
vóru þeir og boðnir og búnir henni að þjóna. Enn hún
var svo vör umm sig, að aldrig áttu þeir félagar kost á að
tala við hana, utan margt manna stœði hjá. Leið svo
vetrinn, þar til er mánuðr var til sumars. Lætr þá
drotning kalla þá félaga á sinn fund og mælti: "Mál
þykir mér komið að vita, hversu þér munið launa mér
vetrvistina." Þeir kváðu hana því ráða mundu. "Þú
Stígandi skalt sœkja svín mín, níutíu að tölu, og fœra
mér þau á fyrsta sumardag, ódrepin og ómeidd, og skaltu
fara á stað í dag. Líf þitt liggr við, ef nokkuð á brestr."
"Hvert á eg að leita svína þeira," spurði Stígandi."Eigi
er eg vön að hirða, hvert þau renna," segir drotning.
 13. Eftir þetta hverfr Stígandi, og vissi enginn hvað
af honum varð. Daginn eftir kallar drotning Hörð fyrir
sig of mælti: "Sendiför hefi eg þér ætlað; skaltu sœkja
hross mín, níutíu að tölu; hestrinn er grár að lit; skaltu
fœra mér þau öll ómeidd á sumardag inn fyrsta. Líf þitt
liggr við, ef nookuð á brestr." "Hvert á eg að leita
hrossanna," spyr Hörðr. "Hér innanlands," segir drotn-
ing. "Eigi eru mér leiðir kunnar hér í landi," mælti
Hörðr. "Kynn þér þær sjálfr," mælti drotning. Bjóst nú
Hörðr til ferðar, og vissi enginn hvert hann fór. Þrem
dögum síðar lætr drotning kalla Knút á sinn fund,og
mælti: "Sendiför hefi eg þér ætlað; þú skalt sœkja uxa
mína, hundrað samam [sic], og koma þeim öllum ómeiddum
til mín á sumardag inn fyrsta. Horn stendr fram úr

[p. 24]

enni á einum þeira; það skaltu fœra mér fult af gulli;
vatn eitt er á vegi þínum; þar í er hólmi, og á eg þar
eggvarp nokkuð; skaltu taka eggin og fœra mér öll óbrot-
in. Líf þitt liggur við, ef nokkuð á brestr." "Hvert skal
þessa leita," spyr Knútr. "Eigi mundir þú þess spyrja,
ef þú fœrir viljugr för þessa; og eigi mundi Sigrgarði
frœkna hafa þótt torveld slík sendiför." Var drotning þá
allreið að sjá. Fer nú Knútr á stað, og tekr með sér
sex af mönnum sínum, enn lét sex vera eftir að geyma
fjárhluta sinna.
 14. Fer nú Knútr leiðar sinnar, og kannar hann
marga ókunniga stigu. Að kveldi dags kemr hann að
sæluhúsi einu, og ætlar sér þar náttstað og mönnum sín-
um. Sendi hann þrjá þeira eftir viði, og þrjá eftir vatni,
og er honum þótti þeim sinka, fer hann að leita þeira og
finnr þá dauða hvoratveggja; vóru aðrir þeira hálsbrotnir
og hinit hálshöggnir. Géngr hann nú heim aftr til sælu-
hússins, og er hann hemr þar, vóru þar fyrir þrír menn,
ef menn skyldi kalla; hét einn Kampi, annar Skeggi og
þriðji Toppr, og vóru þeir stigamenn og spillvirkjar, og
drápu menn til fjár og fœrðu drotningu þann fjárafla.
Sœkja þeir nú að Knúti; vóru þeir bæði sterkir og stór-
höggir, og þóttist hann eigi í slíka raun komið hafa. Sér
hann þá hvar Stígandi kemr og krœkir krókaspjóti sínu í
kjaft Skeggja, og dregr hann út á stöðuvatn, er þar var í
grend; fór þá sem að vanda, að Stígandi sökk eigi
dýpra enn í skóvarp, enn Skeggja var eigi hœgt um
sundið, því að hann var fastr á spjótinu. Samt svam
hann svo nærri Stíganda, að hann beit af honum stóru

[p. 25]

tána. Stakk Stígandi þá bæði augun úr honum, og fœrði
hann svo í kaf, og lét hann svo líf sitt. Þeir Kampr og
Toppur sóttu báðir að Knúti, og var þeira atgangr bæði
harðr og langr. Enn er minst varði, kemr Hörðr þar að
úr skóginum. Toppr snörist að honum, og brá öxi sinni,
enn Horðr hljóp undir hann og rak hann niðr fall mikið,
svo að brotnaði í honum hvert bein. Knútr hljóp að
Kampa, og fœrði hann upp á bringu sér og rak hann
niðr á eikarstofn, svo að brotnaði í honum hryggrinn, og
var það hans bani. Að svo búnu lögðust þeir Knútr og
félagar hans til svefns í sæluhúsinu; þeir Hörðr og Knútr
sinn hvorum megin, enn Stígandi í miðju. Enn er þeir
vóru sofnaðir, lèt [sic] Knútr illa í svefni, og brauzt umm fast-
lega. Var þar komin ylgr ein í fang honum, og vildi
rífa hann í hel, enn hann tók hraustlega í mót. Þeir
Hörðr og Stígandi vöknuðu við vondan draum, og sjá
hvað umm er að vera; krœkir Stígandi spjóti sínu í hupp
ylginni, og dró úr henni garnirnar, enn hún hafði rifið
hold frá beini á Knúti, sva að skein í bera bringutein-
ana. Þetta var Hlégerðr tröllkona, og hjó nú Knútr til
hennar, enn hún brást í drekalíki, og kom höggið á ann-
an vænginn. Flaug hún svo brott, og hvarf skjótt. Þeir
félagar röktu blóðferilinn, þar til er þeir kómu að hömr-
um nokkurum; það var hengiflug, svo að hvergi mátti
upp komast. Báðu þeir Stíganda að freista uppgöngu,
enn hann rann upp bergið sem á sléttum velli væri;
kastaði síðan til þeira skóm sínum og kómust þeir svo
báðir eftir honum, [sic] Síðan halda þeir áfram ferð sinni, og
er þeir hafa eigi eigi lengi géngið, sjá þeir hvar dalr einn

[p. 26]

opnast fyrir þeim; þar voru sléttir vellir; þar sjá þeir
hrossaflokk mikinn; einn hestrinn bar langt af öllum, og
var hann grár að lit og furðulega stór; þar sjá þeir og
flókatryppi eitt vesallegt; lömdu hrossin það öll og þjök-
uðu, enn graðhestrinn lagði það í einelti. Þeir sjá þar
helli mikinn í hlíðinni. Þá mælti Knútr: "Hér muntu,
Hörðr, eftir verða, þó að mér þyki mikið við þig að skilja.
Er nú vanséð, hvort við náum heim aftr fyrir inn fyrsta
sumardag, þótt ekki verði til tafar. Geym þú þessara
hellisdyra, svo að ekki megi út komast; liggr þar við líf
þitt. Síðan skilja þeir, og ganga þeir Knútr og Stígandi
þar til er þeir sjá svínahóp mikinn; þar var gylta ein
mögr og vesalleg, og sugu hana níutíu grísir. Þeir sjá
þar hól á vellinum. Þangað géngu þeir, og nam Knútr
þar staðar, og mælti: "Hér máttu, Stígandi, eftir verða,
þar til er þrjár sólir eru af himni, enn verði eg þá eigi
aftr kominn, þarftu eigi framar mín að vænta. Samt
skaltu ekki að hafast fyrr enn engi von er minnar aftr-
komu, og muntu þá œrið hafa að vinna; því að hér eru
inni níutíu tröll, enn svínahirðirinn er farinn á skóg til
fanga. Veit eg, að þið munið eigast við, er hann kemr
heim aftr. Hér eru dyr á hólnum, og rið niðr að ganga;
þessar dyr verðr þú að geyma, og liggr líf þitt við, ef
nokkur sleppr út úr hólinum."
 15. Knútr fer nú einn saman, og gengr langa vegu.
Kemr hann þá að einum skíðgarði, og sér hann inni nauta-
hóp mikinn, og öskruðu þau svo ógurlega, að honum stóð
stuggr af. Uxi var þar sá, er bar af öllum nautunum; hann
var stór sem fjall, og þríhyrndr; stóð eitt horn hans fram

[p. 27]

úr enninu. Hann vóð jörðu upp fyrir lakk-klaufir. Knútr
gékk að skíðgarðshliðinu og lauk upp; hljóp uxinn þá í
móti honum með ógurlegu öskri, enn hann þreif í horn hans
og kipti því af, svo að slóin stóð eftir. Tók hann þá upp
poka kerlingar, og dreifði úr honum yfir uxann; varð
hann þá spakr og leiðitamr. Síðan rekr hann öll naut-
in út, og dreifir á þau úr pokanum, og gat hann þá rekið
þau hvert sem hann vildi. Vatn eitt var þar í nánd, og
var það hömrum girt á alla vegu og hólmi í. Knútr sér,
hvar einn hræðilegr jötunn rœr á steinnökkva úr hólm-
anum. Það var fylgjari Glégerðar, og hét Gipar. Hann
geymdi nautanna, og varð fremr ófrýnn er hann sér, að
nautin eru útrekin. "Veit eg að þessu veldr vetrsetumaðr
drotningar, sá er særði Hlégerði fóstru mína, og skal eg
þessa grimmlega hefna." Varð þá nökkvinn landfastr og
hljóp jötuninn fyrir borð. Knútr géngr fram á hamrana.
Varð þá jötuninn óðamála, enn Knútr tók stein mikinn og
kastaði og kom við eyra honum, enn hann mælti: "Hvasst
er nú á hömrunum, er svo feykir vindrinn fjöðrunum".
Jötuninn hafði gaddakylfu járni varða, og hleypr hann
nú upp í einstigi, er var í hömrunum, og sem hann kemr
upp í brúnina, rennr Knútr að honum, og rak spjót fry-
ir brjóst honum, svo að á kafi stóð, enn hann hrapaði of-
an fyrir hamrana, svo að brotaði í honum hvert bein,
og varð það hans bani. Knútr náði kylfunni, og steig út
á nökkvann og röri til hólmans. Géngr hann þar á land
og litast umm. Sá hann þar einn fagran hól, og géngr
þangað. Hann sér, að dyr eru á hólinum. Þar sér hann
drekann, og liggr hann á dyngju sinni; var annar vængr

[p. 28]

hans brotinn. Snýst hann þegar að drekanum, og snar-
ar hann úr hálsliðunum, enn drekinn braust umm svo ógur-
lega að jörðin skalf, sem á þræði léki.
 16. Knútr gengr að dyngjunni, og finnr hann þar eitt
egg, og lætr í poka sinn. Nú leitar hann betr fyrir sér,
og finnr hann þá jarðhús eitt; þar lá ormr á gulli, og
blés eitri, enn Knútr dreifði á hann úr poka sínum, svo
hann sakaði eigi. Ormrinn skreið þá út, enn Knútr fann
þar gull svo mikið, að hann fylti hornið. Fer hann nú
á nökkvann, og ætlar til lands, enn er hann er kominn
út á vatnið, öslar ormrinn á eftir honum með svo miklum
boðaföllum, að nær lá að nökkvinn mundi sökkvast.
Knútr lagði til ormsins með kylfunni, enn hann dró
nökkvann í kaf. Hljóp þá Knútr á bak orminum og svam
á honum til lands, og dreifði svo yfir hann poka sínum,
svo að hann sökk. Syndir nú Knútr til lands, og var
hann þá mjög máttfarinn. Þykist hann nú vita, að hon-
um muni eigi til setunnar boðið, og að félagar hans muni
þurfa á hans liðveizlu að halda.
 17. Nú er að segja frá Stíganda, þar sem hann sitr
og geymir hellisdyra. Brátt sér hann hvar svínahirðirinn
kemr úr skóginum; var það Hjálmr, bróðir Hlégerðar. Hann
géngr til svínanna, og rekr þau öll að hólinum. Stígandi
var þar fyrir. Hjálmr mælti til hans: "Til ils eins og
óþarfa komstu hér, og mikla dirfsku ætlar þú þér, að þú
munir reka svínin úr höndum mér." "Á það mun eg
hætta," segir Stígandi, "og ekki dugir ófreistað." Hjálmr
hefir atgeir í hendi, og leggr til Stíganda, enn hann laust
af sér lagið, og í því laukst upp hóllinn að baki honum.

[p. 29]

Stígandi lagði til Hjálms með spjóti sínu, og snaraði hon-
um inn um hellisdyrnar. Voru þar inni níutíu tröll og
sóttu öll að Stíganda. Stígandi varðist hraustlega, og
fékk mörg sár og stór. Sóttu og svínin að honum með
ólátum miklum, enn hann vildi þeim ekki mein gera.
Barðist Stígandi allan daginn, og svo nóttina. Einn göltr
var þar sá er bar af öllum fyrir vaxtarsakir og grimm-
leiks; og er Stígandi tók að þreytast, beit göltrinn í kálfa
hans og bró hann úr hellisdyrunum. Enn í sömu svip-
an kemr Knútr úr skóginum og rak á undan sèr [sic] nauta-
hópinn. Snöri hann þá skjótt í mót tröllunum, og lét
kylfuna ganga á þeim óvægilega. Hjálmr vóð á móti
honum og lagði til hans með spjóti. Átti Knútr nú við
mörgu að sjá. Stígandi var þá á fœtr kominn; hljóp hann
að baki Knúti og krœkti í auga Hjálms, svo að úti lá
á kinnbeini, enn Hjálmr hjó á rist Knúti, og var það mik-
ið sár. Knútr lagði kylfunni á nasir Hjálms, svo að
hausinn molaðist, og var það hans bani. Síðan drápu
þeir í einni svipan öll tröllin, og var þá sól í fullu suðri,
er bardaganum var lokið. Vóru þeir Knútr bæði sárir
og móðir. Þeir leystu þá frá pokanum og dreifðu yfir
svínin; urðu þau þá spök og kyrlát. Gyltan magra var
svo vanheil, að hún var þeim til mikillar tafar. Stígandi
tók hana þá og bar á baki sér. Knútr bað nú Stíganda að
gæta nauta og svína, og hraðar sér til móts við Hörð félaga.
 18. Nú víkr sögunni til Harðar, þar sem hann geym-
ir hellisdyra. Þar sváfu inni fjörutíu tröll, og vildi Hörðr
eigi vega að þeim sofandi. Brátt sér hann koma mann
úr skógi; sá var mikill vexti og hafði járnstaf í hendi, og

[p. 30]

var markaðr gein Óðins á oddinum, enn úr öðrum enda
var að sjá sem eldr brynni. Þessi maðr var Skjöldr,
bróðir Hlégerðar. Hann gékk að skíðgarðinum og lauk
upp fyrir hrossunum. Fóru hrossin út og brugðu á leik.
Skjöldr géngr nú til hellsins. Hörðr sprettr þá upp
fyrir honum og lagði til hans með kylfu sinni, enn Skjöldr
brá sér undan og misti Hörðr hans. Skjöldr lagði til Harðar
með staf sínum, enn stafrinn brotnaði, og náði Hörðr
stafnum. Í því bili laukst upp hellirinn, og út kom einn
hræðilegr jötunn. Hörðr lagði til hans með stafnum og
fell hann dauðr niðr um þverar hellisdyr. Náði þá Skjöldr
aftr staf sínum, og lagði til Harðar, enn Hörðr hljóp í
loft upp, og misti Skjöldr hans; kom stafrinn í hræ ris-
ans, er lá í hellisdyrunum og festist þar, og varð Skildi
ógreitt fyrir umm vörnina. Sóttu nú tröllin öll samt að
Herði, og þóttist hann eigi í meiri mannraun komið hafa.
Skjöldr sótti að honum að utan, enn fékk eigi komizt inn
umm hellisdyrnar. Hörðr lagði til hans og kom höggið
á tanngarðinn, svo að tannirnar brotnuðu allar. Létti
Skjöldr þá atsókninni umm hríð, en Hörðr sækir því fast-
ara að hellisbúum, og svo lauk, að hann drap þá alla, og
leitar síðan útgöngu. Kemr þá Skjöldr á móti honum.
Hörðr sér þá eigi annað ráð vænna, enn að hann hleypr
á Skjöld, og takast þeir á fangbrögðum. Vó Hörðr hann
upp á bak sér og rekr hann niðr fall mikið. Í sömu svip-
an koma stóðhrossin og veitast að Herði og láta allófrið-
lega; átti Hörðr nú í vök að verjast, er hann mátti eigi
vinna hrossunum mein. Skjöldr er nú upp staðinn, og
veðr að Herði í miklum vígmóði. Enn þá kemr Knútr

[p. 31]

hlaupandi og sér, að Hörðr er í háska staddr. Hleypr
hann nú mót Skildi. Skjöldr leggr til hans með staf
sínum, enn Knútr brá við kylfunni, og gékk þá hvor svo
nærri öðrum, að eigi mátti höggum við koma. Tókust
þeir þá á, og urðu með þeim harðar sviftingar. Eigi
mátti Hörðr þar hlut í eiga, því að hann hafði fult í fangi
að verjast hrossunum. Þeir Skjöldr og Knútr glímdu svo
sterklega, að vollrinn nötraði fyrir þeira atgangi, og vóðu
jörðu til knjáa. Tók nú Knútr að þreytast, svo að hann
fór á hæli. Þá kom Stígandi, og rak á undan sér svínin.
Stígandi sèr [sic] viðreign þeirra Knúts og Skjaldar, og snýr
að þangað. Leggr hann krókaspjóti sínu á Skildi miðj-
um, svo að út fellu iðrin; rakti Stígandi svo úr honum
þarmana. Skjöldr þreif í hár Knúti, og rykkir því af
föfðinu. Þá kemr Hörðr, og sækja þeir nú að Skildi allir
samt. Urðu þá skjót leikslok, að þeir ganga af honum
dauðum, og brjóta í honum hvert bein. Dreifðu þeir nú
úr pokanum yfir hrossin, og gerðust þau þá spök og leiði-
töm. Flatryppið var svo vesalt, að það var þeim til
stórrar tafar. Tók Hörðr það og bar á baki sér. Síð-
an tóku þeir félagar tal með sér, og kom þeim það ásamt,
að sá skyldi fyrstr heim homa, er fyrstr fór. Halda þeir
nú áfram ferð sinni, og eru œrið þreyttir og móðir.
 19. Það er sagt, að Stígandi kœmi fyrstr heim; þá
var sól í fullu suðri; drotning var þá nýrisin úr rekkju.
Stígandi rak svínin inn í skíðgarðinn, og horfði drotning
á; hann kvaddi hana ei, enn kastaði inni mögru gyltu
fyrir fœtr henni og spyr, hvort hún muni ei ómeidd vera.
Drotning kvað hann drengilega hafa för sína af hendi

[p. 32]

leyst, "eða hversu líðr svínahirði mínum?" Hann tók þá
höfuð Hjálms, og kastaði í fang drotningu, svo að henni
lá við óviti. Menn drotningar gripu þá til vopna, enn
hún bað þá kyrra vera; "skal eigi þessa hefna fyrr enn
Hörðr kemr heim, því að hvor þeira mun annars hefna."
Stígandi sér, að gyltan magra hrœrist. Drotning hleypr
að henni, og þrífr í burst hennar. Var hún þá laus úr
álögunum. Drotning tók haminn og kastaði til Stíganda,
enn hann tók hann og brendi. Sjá menn þá, að þar
liggr ein fögr jungfrú, og lét drotning dreypa á hana víni,
og hrestist hún þá skjótt. Nú kemr Hörðr heim með
hrossin, og snarar hann flókatryppinu fyrir fœtr drotningu
og bað hana athuga, hvort ómeidd væri af sínum völd-
um, enn hún kvað svo vera. Drotning spyr, hvort hann
hafi eigi frétt til ferða Knúts. Hann segir, hún muni eigi
þurfa að honum að spyrja; muni hún hafa svo fyrir séð
ráði hans. Hún spyr, hversu líði hestamanni sínum.
Hann tekr þá upp höfuð Skjaldar, og kastar í fang henni.
Hún gékk að tryppinu, og tók í faxið, og var þá belgrinn
laus, og sló hún belgnum á nasir Herði, enn hann fór
burt með hann og brendi. Sjá menn þá, að þar liggr
ein fögr jungfrú; lét drotning dreypa á hana víni, og
hrestist hún skjótt.
 20. Tók nú að halla degi, og gerist drotning mjög
illileg í bragði, svo að engi þorði á hana að yrða, nema
Hörðr. Hún bað alla menn sína vera með vopnum; sjálf
tók hún sverð og skjöld, er átt hafði Sigrgarðr inn frœkni,
og sat svo alvopnuð í öndvegi. Líðr nu eigi á löngu áðr
Knútr kemr og rekr nautahóp mikinn inn í skíðgarðinn.

[p. 33]

Síðan géngr hann inn í höllina heldr snúðuglega. Drotn-
ing spratt upp á móti honum, að ætlar að höggva til hans
með sverðinu. Hörðr og Stígandi kómu þar að, og féngu
afstýrt högginu. Knútr lýstr þá egginu á nasir henni,
og leið hún þá í óvit. Knútr tók þá sverðið og ætlar að
höggva af henni höfuðið, enn þeir Hörðr og Stígandi géngu
í milli og urðu all-miklar sviftingar, svo að höllin lék á
reiðiskjálfi. Hörðr kvað ráðlegra að hætta þessum leik;
hafði Knútr þá drepið tíu menn. Enn sem drotning rakn-
aði við, fell hún til fóta Knúti, og vildi kyssa fœtr hans,
enn hann ætlaði að sparka í andlit henni, ef Hörðr hefði
eigi varnað honum. Reisti Hörðr nú drotningu upp, enn
Knútr gékk burt úr höllinni. Hörðr bað Stíganda fara
eftir honum og sefa reiði hans. Nú sem Stígandi kemr á
fund Knúts, heyrir hann að Knútr talar við menn sína,
og biðr þá að fara að höll drotningar og brenna hana.
Stígandi kvaðst hyggja að drotningu mundi runnin reiðin,
og að hún væri nú skaplegri enn áðr. Eigi vildi Knútr
heyra það, og kvaðst skyldu brenna borgina til ösku. Stíg-
andi kvaðst ei letja þess; rendi hann víni á eina gullskál
og spurði Knút, hvort hann vildi eigi drekka, og með því,
að Knútr var bæði þyrstr of þreyttr, þá hann skálina og
drakk af. Enn er hann hafði drukkið, seig á hann sœtr
svefnhöfgi. Nú tekr drotning að hressast og spyr Hörð,
hvar Knútr sé; enn hann kvað það engu varða, og muni
henni ekki mein að honum verða. Þá segir drotning:
"Nú eru öll þau ósköp horfin, sem Hlégerðr lagði á mig
og systr mínar; enn ið fyrsta kvöld, sem þér kómuð hingað,
þekkta eg þegar Sigrgarð; höfum við ójafnt við ázt;

[p. 34]

hann hefir gefið mér líf; enn eg hefi gert honum alt til
meins. Vilda eg nú gjarna mega tala við hann." Hörðr
mælti: "Það er af honum að segja, að hann ætlar að eyða
land þitt enn brenna borg þína til ösku, og taka þig
sjálfa og selja mansali, eðr gefa þig einhverjum þræla
sinna." "Mun þess enginn kostr," segir drotning, "að þú
komir sáttum á með okkr". "Eigi veit eg hvort ef fæ því
áorkað," segir Hörðr, "mun hann þér lítt trúa, því að
þú ert kunn að svikum og illu einu; enn þó vil eg því
heita þér að fara með sáttaboð ykkar á milli, ef þú vilt
gifta okkr brœðrum systr þínar". Drotning mælti: "Eigi
þykir mér þið ásjálegir bræðr, meðan þið breytið eigi hátt-
um." Hörðr kvað þær systr eigi verið hafa ásjálegar fyr-
ir skemstu. Drotning mælti: "Tölum umm þetta síðar, enn
þau boð máttu bera Sigrgarði, að eg gef mig og allar
eignir mínar í hans vald, og vil eg vera hvort sem hann
vill frilla hans eða eiginkona. Hér er fingrgull, er þú
skalt færa honum til jarteikna; þann hring gaf hann mér
í fyrsta sinni er hann kom á minn fund." Síðan fór
Hörðr á burt. Géngr nú drotning til rekkju. Umm morg-
uninn sjá menn drotningar herskipaflota mikinn að landi
sigla. Er þar kominn Ríkarðr konungr faðir Sigrgarðs og
Gjóstólfr karl með ógrynni liðs. Ætlar konungr að hefna
þeirar svívirðu, er sonr hans hafði féngið hjá drotningu.
 21. Sigrgarðr vaknar nú í kastala sínum, og er hon-
um þá runnin reiðin. Hörðr flytr honum nú orð drotn-
ingar, enn hann brosti að, og géngr síðan á fund hennar.
Sem drotning sér Sigrgarð, tekr hún kórónuna af höfði
sér, og fell til fóta honum blíðlega leggjandi sig og alt.

[p. 35]

sitt ríki á hans vald. Sigrgarðr mælti: "Lengi hefir þú
þrálynd verið, enn lægðr sýnist mér nú ofmetnaðr þinn;
enn eigi mun eg við þig sáttum taka nema þú giftir þeim
brœðrum systr þínar; hefir þú margt ilt mér gert, og get
eg eigi þolað slíkt bótalaust; hefi eg nú liðsafla svo mik-
inn, að eg get látið drepa þig og alla þína menn, eðr og
tekið þig með hervaldi og farið með þig eftir minni vild."
Hún kvaðst fegin gefa ríki sitt og sjálfa sig á hans vald,
og mætti hann með fara sem hann lysti. Hann bað hana
þá að efna til ágætrar veizlu, og hafa alt til búið er hann
kœmi frá skipum. Nú fer Sigrgarðr til skipa, og finnr
söður sinn; fagnar hvor öðrum vel. Konungr mælti: "Því
em eg hér kominn, að eg vildi hefna þinnar svívirðingar
og förum nú sem skjótast og eyðum brgina, og gerum
drotningu svo mikla smán, sem verða má." Sigrgarðr mælti:
"Annan veg er nú farið, því við erum sátt orðin; hefir
drotning gefið sig á mitt vald og ríkisitt og systr sínar
báðar". Konungr lèt [sic] þá sefast, og var þó inn reiðasti.
Hann spyr, hverir þeir menn séu í flokki hans, er meiri
eru enn aðrir menn og öllum mönnum ólíkir. Sigrgarðr
mælti: "Annar þeirra heitir Högni (Hörðr) enn annar
Sigmundr (Stígandi), og væntir mig, að þú munir taka
þá í sátt við þig; eru það synir Gjóstólfs karls, er þú
gerðir útlæga, og á eg þeim mikið upp að inna, því að
eigi mynda eg nú á lífi vera, hefða og eigi notið liðveizlu
þeira og Gerðar móður þeira." Konungr kvað Sigrgarð
öllu ráða umm þeira mál, og spyr, hví þeir hafi svo undar-
legan búnað. Gjóstólfr kvaðst hafa keypt af dvergi ein-
um fangastakk þann, er Högni var í; eru innan í honum
hringar af gressjárni, og bíta hann engin vopn. Fœrði

[p. 36]

Gjóstólfr síðan sonu sína úr dularklæðum. Vóru þeir í
skrautklæðum nær sér af skarlati og þóttu nú inir vænstu
menn og vasklegustu. Nú býðr Sigrgarðr föður sínum
heim til borgar með svo marga menn, sem hann vildi.
Fór konungr heim með hundrað manna, og var þar með
Gjóstólfr karl. Drotning fagnar þeim innilega sem komn-
ir vóru, og sagði, að Sigrgarðr skyldi þar öllu skipa sem
hann vildi. Bað hún hann nú mildilega afsökunar á öllu
því, er hún hefði honum í móti gert, og kvað hann öllu
ráða umm sín efni. Sigrgarðr mælti: "Það er helzt, að þér
hefir eigi sjálfrátt verið, enn ætla máttu, að eg hefi eigi
smáþægr verið; vil eg nú vita, hverju þú svarar umm gjaf-
orð systra þinna". Drotning spyr hvar þeir menn sé, er
hann ætli systrum sínum. Þá stóðu upp tveir menn ungir
við hlið Sigrgarðs. Drotning spyr þá að heiti. Annar
þeira kvaðst Högni heita, og hefði áðr nefnzt Hörðr, enn
annar kvaðst Sigmundr heita, enn áðr Stígandi. "Mjög
hefir umm ykkr skift", segir drotning. Spyr nú drotning
systr sínar, hversu þeim líki að eiga menn þessa. Þær
sögðu, að þeir hefðu mest til sín unnið, og kváðust þeim
fegnar játast vilja. Síðan fóru festar fram, og reis þar upp
in virðulegasta veizla; fékk Högni Hildar, enn Sigmundr
Signýjar, og Sigrgarðr inn frœkni gékk að eiga Ingigerði
drotningu. Bauð Sigrgarðr föður sínum til veizlunnar, og
voru öll þessi bullaup haldin með stœrsta gleðskap og
heimsins sóma, og er ei getið. að [sic] Ingigerðr hafi neinar
glettur eða undanbrögð haft í hvílubrögðum við Sigrgarð;
enn að endaðri veizlunni gaf Sigrgarðr þeim brœðrum jarls-
nafn og föður þeira ríki nokkurt til umráða. Fór svo hver
heim til sín með sœmilegum gjöfum burtleiddr. Ríkarðr
konungr siglir heim í Garðaríki, og ríkir þar enn vel og
lengi. Enn Sigrgarðr inn Brækni stýrði Tartaría til elli-
daga, og untust þau vel til dauðadags Sigrgarðr konungr
og Ingigerðr drotning hans. Og endar svo þessa sögu.

---
 
[p. 37 blank]

[p. 38 unnumbered]

[handXXXXX] Bækur til sölu hjá Einari Þórðarsyni [italics for name XXXXX]:
 Passíusálmar ný útgáfa í materíu . . "kr. 66a.
 Lærdómskver síra Helga í góðu bandi . "--- 70-
 Lærdómskver Balles í bandi . . . . "--- 66-
 Egilssaga í bandi . . . . . . . 2--- "-
 Hin ágæta reikningsbók Eiríks Briems,
  sem viðurkennd er bezta reiknings-
  bók á Íslensku:
 I. partur í bandi . . . . . . . 1--- 12-
 II. --- - ---  . . . . . . . 1--- 75-
 Kvöldvökur I.---II. partur . . . . 1--- "-
 Smásögur biskups I. p. í bandi . . . 1--- 25-
 Sagan af Sigurði þögla  . . . . . 1--- 12-
  --- --- Holtaþóri . . . . . . . "--- 18-
  --- --- Vilmundi viðutan  . . . . "--- 30-
  --- --- Gunnlaugi Ormstungu  . . . "--- 70-
  --- --- Marteini málara . . . . . "--- 25-
  --- --- Sigrgarði frœkna  . . . . "--- 30-

And now for a list of manuscripts known to contain Sigrgar�s saga. So far, Alaric has surveyed P�ll Eggert �lason, Skr� um handritas�fn Landsb�kasafnsins, 3 vols (Reykjav�k: Prentsmi�jan Gutenberg, 1918-1937) and part of the supplement by L�rus H. Bl�ndal, Gr�mur M. Helgason, �gmundur Helgason, Handritasafn Landsb�kasafns, 4 vols (Reykjav�k: Prenta� � F�lagsprentsmi�junni, 1947-1996).

201. Lbs. 222, fol. (Saganet.) 3 hands, 1695-9, 1731 and 1746. S�gub�k af �msum fornkonungum og k�ppum, skrifu� 1695-98 af s�ra J�ni ��r�arsyni, fyrrum presti a� S�ndum (XVII er skrifa� 1731 og XIX 1746). Me� registri aftan vi�.

I. 1-13. Saga af Clarusi keisarasyni.
II. 13-26. Sagan af Haraldi Hringsbana.
III. 26-30. Sagan af Sigur�i og �smundi H�na konungi.
IV. 31-42. Saga af Sturlaugi starfsama.
V. 43-89. Knytlinga saga.
VI. 89-93. Saga af Hr�mundi Greipssyni.
VII. 93-96. Saga af Brag�a-�lvi.
VIII. 96-99. "�finntyr af einum hertoga er kallast Walltare."
IX. 100-175. "Sagann af �eim edellega riddara Galmey."
X. 176-195. Sagan af B�sa hinum sterka og �eim Herrau�i.
XI. 196-202. Stj�rnu-Odda draumr.
XII. 202-214. "�fenntyr af �sopo."
XIII. 215-217. "Eitt �finntijr sem kallas brita �aattr."
XIV. 218-219. "�finntijr af einum vngum manne oc eirne bartskera eckiu sem kallast Tr�nu ��ttur."
XV. 219-233. Sagan af Sigurgar�i og Ingiger�i.
XVI. 233-239. Valdimars saga.
XVII. 240-242. "Bref hins mikla Alexandri er hann skrifadi sinum l�remeistara Aristoteli under sitt andl�t."
XVIII. 242-345. Nj�ls saga.
XIX. 345-347. "Vijsur af Nialu samsettar anno 1746."

695. Lbs. 354, 4to. (Saganet.) Ein h�nd. C18.S�gusafn. 1. bindi.

I. 1-18. Sagan af Huld tr�llkonu enni r�ku.
II. 19-25r. Saga af �orsteini b�jarmagn.
III. 25r-31r. Saga af Ambrosio og Rosamundu.
IV. 31r-42v. Sagan af Sigurgar�i fr�kna.
V. 42v-53r. Sagan af B�ring fagra riddara.
VI. 53r-58v. Sagan af H�lfdani Eysteinssyni.
VII. 58v-69v. Bl�msturvalla saga.
VIII. 69v-116r. Egils saga Skallagr�mssonar.
IX. Bl. 116r-129v. Sagan af Jallmanni.
X. 129v-134v. Sagan af Faustus og Ermena � Serklandi.
XI. 134v-147r. Sagan af Egli einhenta og �smundi berserkjabana.
XII. 147r-151. Sagan af H�koni, sem kalla�r var hinn norr�ni.


972. Lbs. 644 4to. Ein h�nd. Skr. ca. 1730-1740.

I. Sagan af Nitida fr�gu ("Niteda").
II. 11-33. Sagan af �jalar-J�ni og Eyreki vi�f�rla.
III. 34-71. Sagan af Hr�lfi Gautrekssyni.
IV. 72-103. Sagan af D�nusi drambl�ta.
V. 103-125. Bl�msturvalla saga.
VI. 126-144. Sagan af Nikul�si leikara.
VII. 145-165. Sagan af Sigrgar�i og Ingiger�i.
VIII. 166-173. "Historiann af Greifa Bethramog Rosalien".
IX. 173-177. Sagan af H�koni norska (vantar aftan af).

1315. Lbs. 998, 4to. Tr�r hendr (a� mestu). Skr. � �ndver�ri 19. �ld, nema f�ein bl��, sem hafa veri� endrn�ju� ca. 1860. Skinnband.

"Nokkrar Fornmanna s�gur."
I. 2-16. "Sagan af Ingvari Eymundarsini."
II. 17-34. "Sagann af Konrad keysara syne."
III. 34. "Saugu �attr af I�ne Upplanda konge."
IV. 35-44. "Sagann af Flores og Blantzeflur."
V. 44-53. "Sagann af Sigurde Turnara."
VI. 53-56. "�oattr af Haldane Baurkar (!) Syne."
VII. 56-62. "Sagann af Ambrosio oc R�samundu."
VIII. 63-88. Sagan "af Fertram oc Plato." "Skrifad � Dritv�k af Olafe Sveinssyne �rid 1805."
IX. 89-98. "Sagann af Dr�uma I�ne og Henrek Ialle." Me� s�mu hendi.
X. 99-108. "Sagan af Halfdane Eysteins Syne."
XI. 108-120. "Sagann af Sigurgarde Fr�kna."
XII. 120-127. "Sagann af Niteda hinne Fr�gu."
XIII. 127-138. "Sagann af Nikulase Leikara."

1540. Lbs. 1217, 4to. (Saganet.) Ein h�nd. Skr. 1817. Mjog roti� og vantar �. S�gub�k. M. H. J�nasar J�nssonar � Vatnshorni � Haukadal.

I. 1-15. Konr��s saga keisarasonar (vantar aftan af).
II. 16.18. Sagan af Faustus og Ermen[g]� (vantar aftan af).
III. 19-30. Sagan af Nikul�si leikara.
IV. 30-55. Sagan af Addonius.
V. 55-66. Sagan af Vilmundi vi�utan.
VI. 67-76. Sagan af Sigrgar�i fr�kna.
VII. 93-96. Sagan af Hr�mundi Greipssyni.
IX. 97-105. Sagan af �n bogsveigi.
X. 105-127. Sagan af H�koni gamla og sonum hans.
XI. 127-31. "Hystorja af Hoakone Norr�na."
XII. 132-135. "Eytt �finnTyr af Placidus Er sijdar nefndez Evstacius."
XIII. 135-146. Sagan af Sturlaugi hinum stafsama.
XIV. 146-149. Sagan af �orsteini hv�ta (vantar aftan af).
XV. 150-162. Sagan af "bernote" Borneyjarkappa.
XVI. 162-191. "Sagann af Lijkafr�n og hanns fjlgiurumm."
XVII. Bl. 191-197. "Sagan af Rigabal kongi."
XVIII. Bl. 198-205. Sagan af H�lfdani kongi Eysteinssyni.

1629. Lbs. 1305, 4to. Tv�r hendr. Skr. 1869 og 1878. Au� bl. 30.
"Riddara s�gur skrifa�ar af J�nasi J�nssyni � H�rgsholti", s��ar dyraver�i, og (1. sagan) af Sk�la Berg��rssyni � Meyjarlandi.

I 1-29 "Sagan af �orsteini Geirnefjuf�stra."
II 31-45. "Sagan af Myrmanni Jarli."
III. 45-60. "Sagan af Sigurgardi fr�kna [,] H�gna og Sigmundi."
IV. Bl. 60-93. "Sagan af Sigurdi ��gla eda ��gula."
V. 94-98. "Sagan af P�l�stator fr�kna og M�ndulfara."
VI. 98-114. "Sagan af Gibbon Kon�ngi."
VII. 115-131. "R�mur [11] af Hermanni Illa kve�nar 1770 af Gu�brandi J�nssyni."
VIII. 131-133. "R�mur af Kl�musi K�ngssyni," n�r aftr � 2. r�mu.

1820-39. Lbs. 1491-1510, 4to. "Fornmannas�gur Nor�rlanda", 20 volumes! Ein h�nd. Skr. 180-1905. Can't be arsed to copy all this out. Sigrgar�s fr�kna og f�stbr��ra hans in vol. IX.

1969. Lbs. 1637, 4to. Skr. ca. 1780 og s��ar. Skinnband. S�gub�k rotin, vantar vi� framan og aftan. Bl. 1-110 m. h. Sigur�ar J�nssonar.

I. 1-8. 'Fl�vents saga.'
II. 8-13. "Sagann af Halfdene Eysteijns Syne."
III. 13-19. "Sagann af Hermann og Iallmann."
IV. 19-24. "Sagann af Eigle Eynhenta oc Asmunde berserkiabana."
V. 24-35. "Sagann af Sigurgarde Fr�kna."
VI. 35-53. "Saga af Dijnuse Drambloata."
VII. 53-58. "Saga af Merselijus og R�samunda."
VIII. 58-68. "Sagann Af Clar� Keysara Sine."
IX. 68-79. "Blomstur vallna saga."
X. 79-91. "Saga af Samsone Fagra."
XI. 91-101. "Saga af Hiater(!) og �lver."
XII. 101-104. "Sǫgu �oattur af Eyreke Vijd fǫrla."
XIII. 104-109. "Sǫgu �oattur af Drauma J�ne."
XIV. 109. "Samtal Salamonis Kongs og Marc�lfs." (Upphaf.)
XV.110. Endir s�gu af Jasoni bjarta.
XVI. 110-111. "Saga af B�rijng Fagra." (Upphaf.)
XVII. 112-134. "Saga af B�ring Fagra Riddara."
XVIII. 135-153. "Saga Helena Einhentu."
Framan vi� liggur "Aledinusar saga", 8vo.

2118. Lbs. 1785, 4to. Ein h�nd. Skr. 1833. Skinnband. S�gub�k m. h. J�ns Halld�rssonar i L�karkoli.

I. 1-17. "Sagann af Hermann og Iallmann."
II. 17-34. "Sagann af Konr�d Keisara Sine og Rodbert Svikara."
III. 34-51. "Saga af �smundi Vijkijng Eirijkssinne."
IV. 51-63. "Sagann af Sigurgardi Fr�kna."
V. 63-70. "Sagann af Ajax enum Fr�kna."
VI. 70-81. "Sagann af B�ring Fagra Riddara."
VII. 81-96. "Sagann af Vilmundi vidutann, sem var sonarsonur B�gu B�sa."
VIII. 96-122. "Saga af Ambales."
IX. 123-140. "Armans-saga."
X. 140-146. "Saga af �smundi og Triggva K�ngi."
XI. 146-147. Li�da brief Sigurdar I�nssonar."

3828. Lbs. 1446, 8vo. (Saganet.) Tv�r hendr. Skr. 1864-71. S�gub�k m. h. E. J�nssonar og Halld�rs J�nssonar: 1) 48 bls. "Saga af Sigurgar�i Fr�kna." 2) 56 bls. "Saga af Gunnari Kjeldugn�ps fibli." �ar me� �rj�r sm�s�gur (��ddar). 3) "Sagan af hermann og Jallmann." 4) 27 bls. "Saga af D�nusi Drambl�ta". 5) 74 bls. "Sagann af M�rmanni Jarli og Sesselju." 6) 54 bls. Saga "af Nikul�si K�ngi Leikara".

5525. in 5516 34 JS. 623-641, 4to. Margv�slegt brot. �msar hendr. Skr. � 17.-19. �ld. S�gusafn, 19 bindi. Sigrgar�s fr�kna in vol. 10.

5950-4. JS. 407-411, 8vo. Margv�slegt brot. �msar hendr. Skr. � 18. og 19. �ld. 

"S�gu-Safn. I-V." (2.-5. bindi a� mestu m. h. Sigur�ar Magn�ssonar � H�ltum; sumt � 2. b. m. h. Halld�rs Dav��sonar). S�gurnar eru: Parmesar lo�inbjarnar, L�kafr�ns og kappa hans, Vilhj�lms sj��s, Haralds Hringsbana, Konr��s keisarasonar og Ro�berts svikara, �jalar-J�ns og Eir�ks forvitna, B�rings fagra, Polycarpi, upphaf (1. bindi).; Ketils h�ngs og Gr�ms lo�inkinna, Fl�russ konungs og sona hans, Sigur�ar f�tar og �smundar H�nakappa, Pilatuss, Jonathans l�knis, tveggja fe�ga �vint�ri (sem Asnab�lkr er af orktr), Illuga Gr��arf�stra, Mark�lfs, �laflekks, Remundar sterka, "Historia edur L�rdoms diktur," r�mverskra keisara, �grip (2. bindi); Kjalnesinga, J�kuls B�asonar, �orgr�ms pr��a, �lkofra, ��r�ar hr��u, Kr�ka-Refs, Herrau�s og B�sa, Sigur�ar f�tar og �smundar H�nakappa (3. bindi); Brag�a-M�gusar, Alexanders og Lo�v�ks, Tistrans og Indi�ndu, Eir�ks v��f�rla, �orgr�ms og kappa hans (4. bindi); Appoll�n�uss konungs, Vilmundar vi�utan, G�ngu-Hr�lfs, Sigrgar�s fr�kna, Valdimars (5. bindi). � 2, bindi eru 3 kv��i.

6320. �B. 165, 4to. (Saganet.) Ein h�nd. Skr. 1778. S�gub�k � tveim hlutum m. h. 'P. J. s.', rita� � Sel�rdal.
I. 1) Postulas�gur. 2) "Sidosto Iacobs sona Tolf Testament" (�. e. Testamenta patriarcharum). 3) "Sagan af Assenat." -- II. S�gur og ��ttir af: 1) Ambales. 2) �smundi v�king. 3) Sigur�i og Tryggva karlssyni (e�a Sigur�i og Sign�ju). 4) G�ngu-Hr�lfi. 5) H�lfdani Eysteinsyni. 6) B�ring fagra. 7) Sigrgar�i fr�kna. 8) Fertram og Plat�. 9) Bl�msturv�llum. 10) Hr�lfi Gautrekssyni. 11) Gauta og Dalaf�flum. 12) �orsteini forvitna. 13) �orsteini stangarh�gg. 14) Agli Skallagr�mssyni; �ar me� tv�r v�sur um Egil (�nnur eftir ��r� Magn�sson � Strj�gi, hin eftir �ann, er hdr. rita�i).

6575. �B. 426, 4to. Ein h�nd. Skr. 1877. S�gub�k m. h. Gu�mundar Hjartarsonar � Hvaleyri. S�gurnar eru af: Fl�res kongi og sonum hans, H��ni og Hl��vi, Sigrgar�i fr�kna (def.), B�ringi fagra (def.), �smundi og Tryggva, H�lfdani Barkarsyni, Brag�a-�lvi, Hermann og Jarlmann, Fl�res og Le�.

6850. �B 185, 8vo. Ein h�nd. Skr. ca. 1770. Skinnband. S�gub�k m. h. Jakobs Sigur�ssonar. S�gurnar eru af: 1) �jalar-J�ni. 2) Sigrgar�i og Valbrandi (bl.25). 3) Floreskongi og sonum hans (bl. 55). 4) Fl�res og Blanzefl�r (bl. 73). 5) Sigir�i ��gla (bl. 91). 6) "Saulo og Nikanor hertoga" (bl. 149). 7) �smundi v�king (bl. 165). 8) Sigrgar�i hinum fr�kna (bl. 16). 9) Fertram og Plato (bl. 202). 10) Vilmundi vi�utan (bl. 202). 11) Jallmanni og Hermanni (bl. 240). 12) Victor og Bl�us (bl. 261). 13) Agli einhenta og �smundi berserkjabana (bl. 278). 14) Samson fagra. (bl. 295). 15) "Gibeon konge og hans syne �skupart" (bl. 312).

6889. �B 224, 8vo. Ein h�nd (a� mestu). Skr.ca. 1750. Skinnband. S�gub�k (mj�g rotin). S�gurnar eru af: 1) Ajax fr�kna. 2) Ambrosius og Rosamunda. 3) Drauma-J�ni. 4) Hermanni og Jarlmanni. 5) B�ring fagra. 6) Konr�� keisarasyni og Ro�bert svikara. 7) �smundi v�king. 8) Agli einhenta og �smundi berserkjabana. 9) Vilmundi vi�utan (sumsla�ar fyllt m. n�rri hendi). 10) Sigrgar�i fr�kna.

7817-25 �BR. 38-46, 8vo. (Saganet.) Margv�slegt brot. Skr. a� mestu � 19. �ld. "S�gu-Safn". Loads of stuff. Sigrgar�s fr�kna in 1st vol. and 7th!

7990. Lbs. 423, fol. (Saganet.) �mar hendr. Skr. � 18. �ld. Skinnband. "Fr�dlegur Sagna Fiesioodur," safna� a� forlagi Bjarna P�trssonar a� Skar�i � Skar�sstr�nd 1733. S�gurnar eru: Noregskonunga ("Norsku Konga Cronica"), Sigrgar�s, B�rings fagra, Fl�ress og Blanzefl�rar, Sigur�ar turnara, Herrau�s og B�sa, Valtara og Grishildar, Bryta, Magell�nu f�gru, Ambr�s�uss og R�samundu. --Aftan vi� hefir veri� skeytt Sk�lholtsbyskupum eftir si�askipinn eftir s�ra J�n Halld�rsson.

8299. Lbs. 2316, 4to. Ein h�nd. Skr. 1850. Skinnband. S�gub�k m. h. El�asar Sigur�ssonar � Straumfjar�artungu. S�gur eru af: Tistram og Isodd, Sigrgar�i og Ingiger�i, Bertram greifa, Fl�rent og Blankinfl�r, Fri��j�fi fr�kna, Hr�mundi Greipssyni, Starka�i gamla. -- Framan vi� eru kv��i eftir s�ra J�n Hjaltal�nm stat��ur Gregor�usar p�fa sj�unda og um uppruna prentverks.

8302. Lbs. 2319, 4to. Tv�r-�rj�r hendr. Skr. 1727-9. "Sagna Fiiesiodur" "samansoankadur og tildreigenn af Biarna Peturssyne [ad] Skarde [�] Skardsstr�nd" 1729. �vint�ri og s�gur af Hr�lfi kraka, Appollon�us, Ingvari Eymundarsyni, Drauma-J�ni, Ti�del riddara, G�ngu-Hr�lfi, Andr�dus, �n bogsveigi, br�g��ttum mylnumanni, Clarus keisarasyni, meistara Perus, Haraldi Hringsbana, Sigrgar�i fr�kna, �lfari og �nundi; h�r eru og sm�s�gur nokkurar.

In aukabindi 1:

590. Lbs. 2484, 8vo. Tv�r hendr. Skr. ca. 1852. Skinnband. Safn riddarasagna og r�mna, meginhlutinn m. h. "P. J�nssonar 1852." S�gur eru af 1) Addon�us, 2) Drauma-J�ni, 3) D�nusi drambl�ta, 4) Klar� keisarasyni, 5) Sigrgar�i fr�kna, 6) Fl�vent Frakklandskonungi, 7) L�kafr�n og hans fylgjurum, 8) r�mur af Marsilius og R�samundu eftir J�n �orsteinsson � Fj�r�um.

892. Lbs. 2786, 8vo. Ein h�nd. Skr. 1869. Skinnband. S�gub�k m. h. Finns G�slasonar, og eru s�gurnar af: 1) Sigur�i f�t og �smundi H�nakonungi. 2) Nitida fr�gu. 3) Fl�res kongi og sonum hans. 4) Polostator og M�ndulfara. 5) Addon�us kongssyni 6) H��ni og Hl��vi. 7) Synadab egypzka. 8) Dynus drambl�ta. 9) Sigrgar�i fr�kna.

In aukabindi 2:

296. Lbs. 3165, 4to (Saganet). Ein h�nd. Skr. 1870-71. S�gur, kv��i og r�mur. 1) Sigurgar�ur fr�kni. 2) Nitida fr�ga. 3) Nikul�s leikari. 4) H�lfdan Eysteinsson. 5) Drauma-J�n og Henrik jarl. 6) J�kull B�ason. 7) "Sveitarv�sur" �r Brei�afir�i. 8) Kv��i eftir Gu�r�nu ��r�ard�ttur fr� Valshamri. 9) R�mur af �orsteini V�kingssyni eftir Magn�s J�nsson a� Laugum. "Skrifa�ar Eptir Eigin handriti sk�ldsins." M. h. �lafs �orgeirssonar � Sk�leyjum.

In aukabindi 3:

407-11. Lbs. 3857-3861, 4to. Margv�slegt brot. Ein h�nd. Skr. 1882-1908. Einar J�nsson � Su�ureyri � S�gandafir�i. Dagb�kur 1. jan. 1882-13. jan 1887 og 2. april 1888-22. april 1908. Ehdr. Sigrgar�s saga should be in the last volume.

516. Lbs. 3966, 4to (Saganet). Ein h�nd. Skr. 1869-1871. R�mnab�k og sagna m. h. �lafs �orgeirssonar � Sk�leyjum. 1) Sigur�ur f�tur og �smundur H�nakonungur (5. vantar mans�ngva) eftir �rna Sigur�sson a� Sk�tum. 2) Sigur�ur turnari (6) eftir Magn�s J�nsson � Magn�ssk�gum og a� Laugum, "Skrifa�ar eptir tveim handritum. -- �ri� -- 1869 --". 3) Sigur�ur k�ngur og Sm�fr��ur (11) eftir sama h�f ... 4) Sagan af Sigurgar�i fr�kna. 5) Sagan af Nitida fr�gu. 6) Sagan af Nikul�si leikara. 7) ��ttur af J�kli B�asyni. 8) �orsteinn V�kingsson (16) eftir Magn�s J�nsson � Magn�ssk�gum og a� Laugum "skrifa�ar eptir eigin handriti sk�lldsins." 9) Vilmundar vidutan (10, vantar mans�ng 1. r�mu) eftir Gu�na J�nsson a� Sleggjul�k, "skrifa�ar eptir eigin handritisk�ldsins en �� bl�kku og m��u." 11) Sagan af �laflekk. 12) Sagan af Kn�ti heimska. -- H�r eru enn fremur Samkve�lingar L��s J�nssonar og �lafs Gu�mundssonar (bls. 412) og tv� lj��abr�f, anna� til Ingveldar �orgeirsd�ttur � Fagurey 1870, undirritu� B. �orsteinsson (bls. 263).

In aukabindi 4:

320. Lbs. 4447, 4to. Ein h�nd. Skr. 1868-1869. Skreyttar titils��ur og upphafsstafir. Skinnband. S�gub�k m.h. Erlends Sigur�ssonar � Sk�la � Berufir�i. 1) Sigurgar�ur fr�kni. 2) �laflekkur. 3) Fri�bert fr�kni. 4) Sigur�ur og Tryggvi. 5) �orgr�mur k�ngur og kappar hans. 6) Starka�ur gamli.

591 Lbs. 4718, 4to. vantar bls. 401-402 og 491-492. Ein h�d. Skr. � s��ara hluta 19. aldar e�a fyrra hluta hinnar 20. S�gub�k m.h. Magn�sar J�nssonar � Tjaldanesi. 1) Sigur�ur ��gli og f�stbr��ur hans. 2) Naton persiski og Fl�r�d� drottning. 3) M�gus jarl og �mundasynir. 4) El�n drottning einhenda. 5) Lykla-P�tur og Magel�na hin fagra. 6) Sigurgar�ur fr�kni og f�stbr��ur hans. 7) Fort�natus ��r�arson og synir hans. 8) Sigur�ur k�ngur Hl��versson og Snj�fr��ur drottning (vantar ni�urlag).

696 Lbs. 4823, 4to. Margv�slegt brot. Hefti oglaus bl��. Skr. � 20. �ld. �mis �ttarfr��leikur runnin fr� �orvaldi Kolbeins prentara. Um afkomendur J�ns �lafssonar Ind�afara; t�ningur um Kjarna�tt (fr� ��r�i P�lssyni og Bj�rgu Halld�rsd�ttur � Kjarna � Eyjafir�i); vi�b�tur vi� "Ni�jatal" s�ra �orvalds B��varssonar � Holti ogBj�rns J�nssonar � B�lsta�arhl��, sem Thorvald Krabbe gaf �t 1913; rakinn �tt s�ra J�ns �orvar�arsonfar � Brei�ab�lsta� � Vesturh�pi og taldir ni�jar B�r�ar Gu�mundssonar og Sigr��ar J�nsd�ttur � Arnadal.

698 Lbs. 4825, 4to (Saganet). �rj�r hendur a� mestu. Skr. � s��ara hluta 18. og fyrra hluta 19. aldar. Skinnband (�rykkt). S�gub�k (vantar titilbl.). 1) Ambales. Loki� a� skrifa 1789. 2) Gunnar Keldugn�psf�fl. 3) Egill einhenti. 4) Kr�ka-Refur. 5) Konr�� keisarason. 6) Hr�mundur Greipsson. 7) Sigur�ur turnari. 8) Sigur�ur f�tur og �smundur H�nak�ngur. 9) Haraldr Hringsbani. 10) Sigurgar�ur fr�kni og Ingiger�ur. 11) Fl�ris og Blankinfr�. 12) Au�unn vestfirzki. 13) Valtari hertogi.

1128 Lbs. 4070, 8vo. Ein h�nd. Skr. 1862. Skinnumslag. Sagan af Sigur�i fr�kna. M.h. Eir�ks Eyj�lfssonar � Krossi � Berufir�i. Skrifu� � Krossi 18. jan. 1862 (bls. 41).

Also, found on Saganet:

AM 556 a 4to (Saganet). In the Safn �rna Magn�ssonar Reykjav�k.

GKS 1002 fol (Saganet). C17 (see Driscoll's 'Postcards from the Edge' article).

Back to Alaric's homepage

microsoft windows 7